Hverjir verða nauðsynlega að borga?

Það sannast í umhverfi "hrunsins" að börnin leika það eftir sem fyrir þeim er haft. Í þessu sambandi er rétt að líta á "börn sem byrjendur". Byrjendur á frjálsum fjármagnsmarkaði voru í þessu samhengi stærsti hluti íslensku þjóðarinnar. Fyrirhafendur voru einstaklingar sem "áttu" svo mikla peninga að þeim var skítsama um þá - eða réttara sagt gátu ráðstafað peningum annarra án þess að þurfa að axla neina ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna.

Allt helst þetta í hendur. Ríkisstjórnir, alþingismenn og ráðherra þróunartímbils "hrunsins" gerðu þessum aðilum kleyft að svíkja og pretta náungann með t.a.m. að ganga þannig frá lögum að þeir sem þessa iðju stunduðu gætu, í skjóli einkahlutafélaga með 500.000 króna hlutafjárframlagi, fyrt sjálfan sig hugsanlegu tapi af "rekstrinum".

Meira að segja þótti nægjanlegt að stofnendur einkahlutafélaga gætu "sýnt fram á" 500.000 króna hlutafé í formi eigna staðfestum af þar til bærum aðila. Þar til bær aðili var t.a.m. löggiltur endurskoðandi. Væri ekki rannsóknarvert að hve miklu leyti löggiltir endurskoðendur einkahlutafélaga í eigu starfsmanna fjármálafyrirtækja voru þeir hinir sömu og fyrirtækjanna sem starfsmennirnir unnu hjá?

Í þessu sambandi er ekki nóg að skoða nöfn endurskoðendanna heldur þarf að skoða hjá hvaða endurskoðendasamsteypum þeir unnu. Ef til vill var hlutafé í öllum þessum einkahlutafélögum aldrei til, aðeins pappírar sem voru, þegar á reyndi, einskis virði.

Sauðsvartur almúginn er aftur á móti að keppast við að greiða skuldir sínar eins lengi og einhver króna er til og gerir það skv. ráðleggingum þeirra sömu aðila og komu þeim í þessi vandræði og eru enn starfsmenn fjármálafyrirtækjanna. Til að sýna svo almúganum fram á alvöru þess að hætta að greiða eru innheimtufyrirtæki, í eigu fjármálafyrirtækjanna, farin að senda innheimtubréf jafnvel fyrir eindaga afborgunar.

Einu sinni var sú tíð uppi að til voru tvö hugtök um seinkun greiðslu, þ.e. greiðslufall og vanskil. Vanskil töldust þá ekki vera á skuld fyrr en ákv. margir gjalddagar voru ógreiddir. Einhvern tíman voru það þrír gjalddagar.

Það skyldi þó aldrei vera að breytingar í þessa veru hafi orðið vegna nauðsynjar fjármálafyrirtækjanna á að halda kerfinu gangandi og hlaða inn í "traustu útlánasöfnin".

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband